Það sem öllu á að bjarga

Í grein í WSJ.COM er áhugaverð yfirferð um það sem til þarf í umbyltinguna miklu, undir fyrirsögninni: ,,The EV Era Needs a Lot of Really Big Trees – WSJ.

Þegar til stendur, að rafvæða helst allt sem hægt er að rafvæða og þá ekki síst bílana, þá þarf margt til.

Það kostar sem sagt klof að ríða röftum og þetta íslenska orðtak á enn betur við núna en oftast áður!

Það þarf t.d. að framleiða rafmagn til að rafmagn sé í boði og illa getur gengið að komast framhjá þeirri staðreynd.

Stærstu trén í skóginum eru höggin sem aldrei fyrr, til nota sem burðarvirki fyrir raflínur og ekki nýtast þau alveg upp í topp til þeirra nota, því eins og við vitum mjókka trjábolir eftir því sem ofar dregur.

Og það tekur tíma að rækta tré og þeir sem það gera horfa til langrar framtíðar, auk þess sem það geta ekki öll tré uppfyllt þær kröfur sem þarf, til að þau geta orðið stórir og stæðilegir rafmagnsstaurar!

En það eru ekki aðeins trén sem eru notuð til að bera uppi flutningslínur fyrir rafbílarafmagn og fleira, því það eru líka búin til möstur úr steypu og stáli og allt kostar þetta ágengni á birgðir Jarðarinnar af þeim efnum sem þarf til framleiðslunnar.

Það má heldur ekki gleyma því að til að flytja rafmagn milli landshluta þarf línur til að hengja á staurana og möstrin, svo það er á ýmislegt á að líta, hvað rafbílavæðinguna varðar.

Þaðan verður samt tæpast aftur snúið, því sefjunin er mikil og batteríbílar þurfa að vera helst ekki færri en tveir á hverju heimili og í þá þarf efni sem sótt er í auðlindir Jarðarinnar; eru tekin þaðan, en þau vaxa ekki aftur og þegar þau eru á brott, þá eru þau einfaldlega farin og búin að vera!

Við erum ekki komin að því að fjalla um rafhlöðurnar sem sannarlega verða ekki til úr engu síður en svo og nú eru menn farnir að huga að því að kafa niður á hafsbotn og sækja þangað þau verðmætu hráefni sem til þarf, til að búa til rafhlöður fyrir bíla.

En til að tryggja að rafbíllinn verði ekki rafmagnslaus, er gott ráð að hengja aftan í hann bensínrafstöð, getur verið á kerru, því hún þarf ekki að vera mjög stór og nota hana síðan, til að hlaða rafbifreiðina þegar komið er á notalegan stað fjarri lífsins erli, til dæmis í íslenskri náttúru.

Þá er sem sagt gott, að setja bensínrelluna í gang og nota hana til að hlaða bílinn svo hann sé til reiðu fyrir akstur morgundagsins.

Muna bara eftir því að hafa með sér bensín á brúsum og eyrnatappa til að geta notið kyrrðarinnar!

Munum svo, að tré spretta ekki eins og arfi, en það gerir ekkert til, því við eru svo góð og því verður allt gott!

Færðu inn athugasemd