Það er fátt sem kemst að í huga okkar þessa dagana, annað en hörmungarnar sem eru að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs og í stríðsátökunum sem eru milli Rússlands og Úkraínu.
,,Þegar vonin ein er eftir“ var nafn á bók sem ritari las fyrir nokkrum áratugum. Þar var það einstaklingur sem ratað hafði á vondar slóðir í lífi sínu sem sagði söguna.

Það sem nú er að gerast er allt annars eðlis, þó ekki megi gleyma því, að allt sem gerist, hvar sem er, tengist einstaklingum á einhvern hátt, lífi þeirra og þrám, óskum þeirra og löngunum til betra lífs og umfram allt að fá að halda lífi.
Það er tíðindalítið á Íslandi, lífið gengur sinn gang, fólk fer í vinnuna og kemur heim að kvöldi, kíkir á sjónvarpsfréttirnar og lætur sér líða vel í sófanum.
En það hefur ekki alltaf verið svo, því ef skoðað er aftur í tímann, þá hefur lífið stundum tekið sinn toll af kynslóðunum, í faröldrum, náttúruhamförum, sjósköðum og öðrum slysum og viti menn, einnig í stríðsátökum innanlands en líka, þegar þjóðir Evrópu hafa fundið sér tilgang í því að berast á banaspjótum.
Við erum heppin núna, því það eru ekki svo mikið sem kröfugöngur á götum, ekki mótmælastöður og það er sem það helsta og markverðasta sé störukeppni milli utanríkisráðherrans og forsætis, vegna undarlegrar afstöðu þess fyrrnefnda í atkvæðagreiðslu á þingi Sameinuðu þjóðanna, sem rísa ekki nú, frekar en svo oft áður undir nafni, en það er bæði gömul saga og ný.
Við sjáum föður syrgja barn sitt og við vitum ekki hvar móðirin er, en grunar að hún sé horfin og hafi látið lífið í sendingu frá þeim sem aflið hafa, aflið til að mylja allt undir sig sem þeir vilja.
Það er illska og það illa ræður ríkjum í samskiptum þjóðanna sem deila núna og hafa deilt á áttunda áratug og kannski miklu lengur ef alls er gætt og engu sleppt, en við hugsum ekki um það.
Það er nútíðin en ekki fortíðin sem við erum að hugsa um, fyrst og fremst, þó alltaf sé gott að horfa til fortíðar og styðjast við hana, a.m.k. að einhverju leiti.
Ef við horfum til framtíðar, þá blasir við að svona getur þetta ekki gengið til, að það sé verið að murka lífið úr heilli þjóð af annarri þjóð sem við vonum að sé ekki svo heillum horfin að hún standi óskipt að baki þeim sem henni stjórna.
Eitt er að hafa vilja, en annað er að hafa getu og þor til að stíga fram og segja mönnum að hætta brjálæðinu. Það er nefnilega alls ekki víst að því yrði vel tekið. Allt eins líklegt að viðkomandi yrði úthrópaður sem svikari, eða eitthvað þaðan af verra.
Því er það, að utanaðkomandi þurfa að stíga inn í deiluna og það hafa þeir gert í líki bandaríska hersins. Rétt er að taka það fram að herinn tók sig ekki sjálfur fram um að stíga inn í þá deilu!
Nei, það var vitanlega ekki svo, hann var sendur á vettvang af stjórnvöldum Bandaríkjanna til að taka þátt í og styðja framgöngu Ísraels og fannst þá mörgum sem þar stigi fram stóra gyðingaríkið, til að styðja við það litla í illverkunum.
Vonin ein er sem sagt eftir, eins og áður sagði og við höldum í hana dauðahaldi, í þeirri von að inn læðist, þó ekki væri nema örlítill vottur um mennsku og kærleika, í stað haturs og heiftar.

Færðu inn athugasemd