Á miðlinum ZeroHedge sjáum við að það er ýmislegt um að vera hjá fjölskyldunni sem stjórnar gangi heimsmálanna og að það er réttarríkið í Bandaríkjunum sem stendur í stórræðum og línan stefnir niður á botn.
Hvað sem segja má um Bandaríkin og framgöngu þeirra í heimsmálunum, þá verður það ekki af þeim tekið að fjölmiðlar eru tiltölulega frjálsir og þeir greina frá því sem er að gerast, fletta ofan af og hlífa fáum.
Nú er það forsetafjölskyldan sem er á milli tannana á Zeróinu og undir hælnum á réttarkerfinu og það ekki að ástæðulausu.
Vald spillir, auður spillir og klíkusambönd eru gróðrarstía spillingar og því þarf réttarkefið að virka til að geta tekið á slíkum málum og gildir það svo sannarlega ekki bara um Bandaríkin.
Bandaríkin eru auðræðisríki og því þarf réttarkerfið að vera þar bæði gott skilvirkt og sanngjarnt. Hvort það er það má um deila og víst er það ekki gallalaust eins og dæmin sanna.
Gallalaust er það ekki heldur á okkar litla Íslandi ef út í það er farið og vel er hægt að finna dæmi um dóma sem orka tvímælis og það jafnvel svo að þeir hafa verið teknir fyrir í lagadeild sem víti til varnaðar, en þessi pistill átti ekki að vera um Ísland, svo best er að snúa sér að öðru!
Í Bandaríkjunum munu finnast dæmi um að einstaklingar hafi fengið að dúsa í fangelsi drjúgan hluta ævi sinnar – og það gerist víðar en þar, sem afsakar ekkert en má samt muna eftir -, og stundum er það svo, að sakborningar geta jafnvel talist heppnir, ef þeir endanlega fá afgreiðslu sinna mála með dauðadómi, frekar en tærast upp í fangelsisvist.
Hér verður ekki mælt með því að glæpamenn sprangi um götur að óþörfu, en dæmin eru of mörg um dóma sem ekki ættu að vera til.
Kannski er það betra að Assange sé í bresku fangelsi, svo geðslegt sem það er, en ef að hann hefði verið framseldur til Bandaríkjanna í kvöl og pínu þar, fyrir að segja frá stríðsglæpum þar á bæ.
Aftur að frétt og gleyma ekki þræðinum!
Að mati ritara er ZeroHedge talsvert hægri sinnaður miðill, en að því sögðu líka rödd sem segir það sem látið er liggja í láginn hjá öðrum og alls ekki ástæða að hundsa allt sem þaðan kemur á þeim forsendum.
Það er ekki hægt að líta fram hjá því að ýmislegt má að finna í USA og ef satt er að fjölskyldan sem er til umræðu í grein miðilsins sem hér er vitnað til, sé af því tagi sem þar er haldið fram, að þá er það grafalvarlegt mál, vegna þess hve voldugt og áhrifamikið ríkið er á heimsvísu.
Ekki má heldur gleyma því að við Íslendingar treystum því fyrir að gæta fjöreggsins okkar!
Að því slepptu er það heimsbyggðin öll sem á mikið undir því að þessu volduga ríki sé stjórnað af vönduðu fólki og á yfirvegaðan hátt.
Þegar labbakútar með vinstri slagsíðu og bloggáráttu, eru farir að hugasa með söknuði til forsetatíðar Trumps, þá er illa komið í Bandaríkjunum og þar með í heimsmálunum öllum!
Í greininni sem hér hefur verið vitnað til er hægt að finna slóð á réttargögn sem undirritaður hefur ekki sökkt sér í, en þau sem vilja geta nálgast þau á tenglinum sem er hér.

Færðu inn athugasemd