Þrjótar, einhyrningar, póstur og álftir.

Tölvuárásir gera ólukku og við því er brugðist með æfingum. Árásirnar spruttu fram í netheimum eftir leiðtogafundinn sem haldinn var með pompi, pragt og peningaaustri.

Gott er samt til þess að vita, að til skuli vera þeir í samfélginu sem vilja eyða orku sinni í verkefni af þessu tagi.

Hvort árangurinn skilar erfiði er samt óljóst, en vont væri ef einhverjir þrjótar næðu að leggja orkukerfi landsmanna á hliðina. Nú er ekki lengur hægt að kalla sendiherra rússnesku þjóðarinnar á fund vegna málsins og sýnir það með öðru, að löngu var kominn tími til að skipta um utanríkisráðherra.

Hvort sá nýji stendur sig betur og verður yfirvegaðri í ákvarðanatöku, kemur tíminn til með að leiða í ljós, en betra er heilt en gróið, eins og þar stendur.

Einhyrningar munu vera komnir til sögunnar og þó ekki, en málið er að glæsilegt afrek var unnið í rekstri fyrirtækis á líftæknisviði vestur á Ísafirði, sem var síðan selt fyrir miklar fúlgur til dansks fyrirtækis.

Málið snýst um vinna græðandi efni úr þorskroði og það lukkaðist svo vel að þeir dönsku sáu sér hag í því að kaupa.

Gott met?

Póstþjónusta í landinu okkar góða, versnar og versnar og versnar, með aukinni einka(vina?)- væðingu og því sem henni tilheyrir og nú er svo langt komið í þróun póstþjónustu á ísa köldu landi, að hún er orðin sú versta í Evrópu!

Segi menn svo að ekki sé hægt að ná árangri með einkavæðingunni!

Til eru þeir sem vilja hefja skotveiði á álftum og hafa álpast til að gera það áhugamál sitt opinbert.

Þar munu fara fremstur í flokki Þórarinn Ingi Pétursson frá Framsóknarflokki sem flytur þingsályktunartillögu þar um þar um. Hvort tillagan hlýtur samþykki meirihluta þingmanna, verður tíminn að leiða í ljós, en frekar vafasamt verður að telja að fögnuður kjósenda verði mikill.

Færðu inn athugasemd